Synjað um leyfi til vinnslu upplýsinga um greiðsluhegðun einstaklinga

 

Persónuvernd hefur synjað Lánstrausti hf. um leyfi til að safna og miðla persónuupplýsingum um greiðsluhegðun einstaklinga.

1.

Ósk Lánstrausts hf.

Með bréfi, dags. 19. ágúst 2008, fór Lánstraust hf. (LT) þess á leit að Persónuvernd fjallaði enn um ósk félagsins um að mega safna og miðla persónuupplýsingum um greiðsluhegðun einstaklinga. Til grundvallar yrðu lagðar upplýsingar sem LT myndu berast frá áskrifendum. Þetta yrðu upplýsingar um kröfur á hendur einstaklingum - um gjalddaga, eindaga og greiðsludag. Yrði unnið með þær án tilllits til þess hvort vanskil verði. Myndi LT nýta upplýsingarnar til að reikna út meðalgreiðslutíma hjá hverjum einstaklingi og selja aðgang að niðurstöðunum.

1.

Fyrri afgreiðslur

Félagið hefur áður óskað heimildar Persónuverndar til framangreindrar vinnslu en verið synjað. Í bréfi Persónuverndar, dags. 10. desember 2007, um slíka synjun, segir m.a.:

„Ljóst er að sú vinnsla sem erindi LT lýtur að er líkleg til að verða mjög umfangsmikil. Má ætla að ef af verði muni upplýsingar verða unnar um greiðsluhegðun meginþorra þjóðarinnar. Af þeim sökum má ætla að aðstæður þeirra, sem upplýsingarnar varða, séu um margt ólíkar og vinnslan komi því mjög misjafnlega við þá. Í athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, kemur fram að 7. tl. 8. gr. verði ekki beitt nema ábyrgðaraðili hafi viðhaft mat á því hvort hagsmunir hins skráða af því að vinnslan fari ekki fram vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæla með vinnslunni. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að slíkt mat hafi farið fram og fyrir liggur rökstudd niðurstaða um að hagsmunir af vinnslu slíkra upplýsinga um einstaklinga séu meiri en af því að hún fari ekki fram verður ekki fallist á fyrirliggjandi beiðni um að breyta starfsleyfi til handa Lánstrausti hf. í samræmi við framangreint."

Að fenginni framangreindri synjun bað LT aftur um leyfi og var aftur synjað, sbr. bréf Persónuverndar, dags. 30. júní 2008. Þá sótti LT aftur um slíkt leyfi með bréfi, dags. 19. ágúst 2008, og er sú ósk nú til afgreiðslu.

2.

Sjónarmið LT

Í bréfi LT, dags. 19. ágúst 2008, segir m.a.:

„Hvergi í lögum nr. 77/2000 er vikið að því hvernig framkvæma eigi það mat er 7. tl. 1. mgr. 8. gr. byggir á. Í ákvörðun Persónuverndar frá 10. desember 2007 er ekki að finna neinar ábendingar eða tilmæli til félagsins um það hvernig umrætt mat eigi að fara fram, né í ákvörðuninni frá 30. júní sl. Þá eruí ákvörðun Persónuverndar frá 30. júní sl. ekki tilgreindir þeir lögvörðu hagsmunir hins skráða er hnekkja umræddu hagsmunamati félagsins og koma þannig í veg fyrir vinnsluna. Þá er ekki heldur rökstutt á hvaða hátt hagsmunamat félagsins standist ekki kröfur 7. tl. 1. mgr. 8. gr. pvl."

Í bréfi LT, dags. 16. október 2008, segir:

„Þegar virtir eru hagsmunir hins skráða af vinnslu upplýsinga um greiðsluhegðun í samhengi við hagsmuni hins skráða í tengslum við aðrar vinnsluheimildir félagsins, telur félagið að umrædd vinnsla hafi heilt yfir jákvæðari áhrif á hagsmuni hans en hefðbundin vinnsla með vanskilaupplýsingar.

[...]

Fram hjá því verður hins vegar ekki horft, að í þeim tilvikum sem greiðsluhegðun hins skráða sýnir aukningu í vanskilum á milli ársfjórðunga, þá gæti slíkt í einhverju tilvikum afhjúpað verra lánshæfi en núverandi vinnsla geri. Áhrifin eru þó líkleg til að verða minna en ætla mætti og skal gerð nánari grein fyrir því:

- Flest fyrirtæki er stunda lánsviðskipti/reikningsviðskipti nota nú þegar upplýsingar um greiðsluhegðun þegar lánshæfi viðskiptavina þeirra eru metin. Þannig styðjast þau við viðskiptasögu viðskiptamanna sinna, þ.e. eigin gögn er sýna slíkt. Í slíkum tilvikum hafa upplýsingar um greiðsluhegðun frá Creditinfo lítil áhrif. Er þetta í raun þekkt í tengslum við notkun upplýsinga í vanskilaskrá, þar sem skráning á vanskilaskrá hefur takmarkaða þýðingu þegar góð greiðslusaga skuldara er til hjá kröfuhafa. Af þessu leiðir að notkun upplýsinganna yrði að mestu bundin við mat á nýjum viðskiptavinum, þ.e. viðskiptavinum sem ekki hefðu greiðslusögu hjá hlutaðeigandi fyrirtæki.

- Flest fyrirtæki sem stunda láns- eða reikningsviðskipti útvista vanskilainnheimtu og senda kröfur til innheimtuaðila að jafnaði 20-30 dögum eftir gjaldfall. Þegar fyrirtæki hefur sent vanskilakröfu í slíka innheimtu, þá getur það ekki lengur miðlað upplýsingum um greiðsluhegðun til Creditinfo. Af því leiðir að upplýsingar um greiðsluhegðun tækju fyrst og fremst til þeirra sem borga innan fyrrgreindra tímamarka.

- Varhugavert er að ætla að upplýsingar um greiðsluhegðun einstaklinga, er sýni að hinn skráði greiði að jafnaði reikninga innan 30 daga frá gjaldfalli, myndu takmarka lánamöguleika hins skráða umfram það sem nú er, sbr. skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins á vanskilum hjá innlánsstofnunum

- Ekki verður framhjá því litið að mikil fylgni er á milli vaxandi greiðsludráttar og skráningar á vanskilaskrá. Líkt og kom fram bréfi félagsins 23. apríl sl., þá greiða 90-95% einstaklinga reikninga sína á réttum tíma eða innan 30 daga frá gjaldfalli. Ef miðað er við að 7,5% einstaklinga, 18 ára eða eldri, greiði reikninga sína á síðara tímamarki þá jafngildir það 18.200 einstaklingum U.þ.b. 242.000 einstaklingar, 18 ára og eldri, eru búsettir á Íslandi.. Fjöldi einstaklinga á vanskilaskrá, sem byggir á sama úrtaki, eru 15.700. Á grundvelli þessara talna má ætla að að þeir sem draga að greiða reikninga lengur en 30 daga séu mjög líklegir til að lenda á vanskilaskrá. Miðlun upplýsinga um greiðsluhegðun hlutaðeigandi gæti mögulega leitt til þess að lánsviðskipti yrðu takmörkuð fyrr en ella, að því gefnu að hinn skráði kysi sjálfur að skýra rangt frá. Ef það væri raunin, þá er slíkt til þess fallið að draga úr möguleikum á frekari skuldsetningu hlutaðeigandi og um leið draga úr líkum á því að þeir lendi á vanskilaskrá. Félagið telur jákvætt ef fyrirhuguð vinnsla er líkleg til þess að draga úr fjölda skráninga á vanskilaskrá og þá ekki síst fyrir hinn skráða. Hér má einnig vísa til almannahagsmuna, en umrædd vinnsla er til þess fallin að takmarka aukna skuldsetningu einstaklinga er skortir greiðslugetu og koma þannig í veg fyrir óviðráðanlega skuldsetningu.

- Miðað við framangreindar forsendur þá væri vinnslan líklegust til að hafa áhrif á þá tæplega 3.000 einstaklinga sem ekki lenda á vanskilaskrá en draga greiðslu umfram 30 daga. Hún yrði þó aðeins neikvæð fyrir þá aðila ef þeir hefðu ella skýrt væntanlegum lánveitenda ranglega frá stöðu sinna mála.

- Félagið bendir á að viðskiptavinum þess (áskrifendum) er heimilt að skrá upplýsingar um vanskil sem hafa varað í 40 daga ef slíka heimild er að finna í skuldaskjali sem skuldari hefur undirritað. Staðreyndin er sú að stærstur hluti skuldabréfa, sem notuð eru í bankakerfinu, hafa að geyma staðlað ákvæði með slíkri heimild. Vanskilaskráningar byggðar á umræddri heimild eru til þess fallnar að draga úr neikvæðum áhrifum á hagsmuni hins skráða er kann að fylgja vinnslu upplýsinga um greiðsluhegðun.

[...]

Telur félagið að sjónarmið um almannahagsmuni eigi sérstaklega vel við í ljósi núverandi aðstæðna. Þannig hafa yfirvöld boðað að almenningi verð veitt aðstoð, s.s. í formi frystingu húsnæðislána, að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Markmiðið með umræddum aðgerðum er að auðvelda fólki að standa við skuldbindingar sínar, þ.e. þeirra er eiga í raunverulegum greiðsluerfiðleikum. Upplýsingar um skuldbindingarnar og þá sérstaklega efndir á þeim, eru líkleg til að hafa mikla þýðingu fyrir stjórnvöld og kann að vera forsenda fyrir aðstoð eða útfærslu úrræða. Er ekki ólíklegt að eftirlit með þróun greiðsluhegðunar, eftir að gripið hefur verið til sértækra úrræða gagnvart einstaklingi, sé mikilvægt til að staðreyna að skilyrðum sé fullnægt og að þeim einum sé veitt aðstoð er þurfa á henni að halda.

Með vísan til framanritaðs er það mat félagsins að hagsmunir fyrir vinnslunni séu meiri en hagsmunir hins skráða fyrir því að hún fari ekki fram. Jafnframt telur félagið að almannahagsmunir styðji framangreinda vinnslu."

3.

Svar Persónuverndar

Miðlun upplýsinga um greiðsluhegðun einstaklinga er vinnsla almennra persónuupplýsinga sem þarf að eiga sér stoð í einhverju skilyrða 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Lánstraust hf. telur þá vinnslu sem um ræðir vera á samræmi við skilyrði 7. töluliðar málsgreinarinnar. Þar segir að vinnsla sé heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili eða þriðji maður, eða aðili sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna sinna. Heimildin gildir þó ekki ef grundvallarréttindi og frelsi hins skráða, sem vernda ber lögum samkvæmt, vegi þyngra. Í þessu felst að skilyrðið er ekki uppfyllt nema viðhaft hafi verið mat og niðurstaða þess verið sú að vinnsla sé nauðsynleg til að tryggja hagsmuni ábyrgðaraðila eða þeirra aðila sem myndu fá upplýsingarnar í hendur, enda teljist hagsmunir hinna skráðu af því að vinnsla fari ekki fram ekki vega þyngra.

Rök Lánstrausts hf. eru þau að flest fyrirtæki sem stundi lánsviðskipti og útvisti vanskilainnheimtu sendi kröfur til innheimtuaðila að jafnaði 20-30 dögum eftir gjaldfall. Vinnsla LT myndi fyrst og fremst taka til upplýsinga um einstaklinga sem borgi fyrr en það myndi vart takmarka lánamöguleika þeirra. Mikil fylgni sé milli aukins greiðsludráttar hjá mönnum og þess að þeir færist á vanskilaskrá. Vinnsla myndi líklegast hafa áhrif á einstaklinga sem draga greiðslur í meira en 30 daga en lenda þó ekki á vanskilaskrá. LT fái nú þegar að vita um tilvik þegar greiðsluseinkun hefur orðið í a.m.k. 40 daga ef hinn skráði hafi samþykkt það samkvæmt undirrituðu skuldaskjali. Loks eigi almannahagsmunir sérstaklega við núna því yfirvöld hafi boðað að almenningi verði veitt aðstoð, t.d. í formi frystingar húsnæðislána, og skuldbindingar og efndir á þeim séu líklegar til að hafa mikla þýðingu fyrir útfærslu þessa.

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 14. nóvember 2008 var fjallað um erindi Lánstrausts hf. um söfnun og miðlun persónuupplýsinga um greiðsluhegðun einstaklinga. Um er að ræða mjög umfangsmikla vinnslu persónuupplýsinga sem færi fram án samþykkis og vitundar hinna skráðu. Félagið telur vinnsluna eiga sér stoð í 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Að mati Persónuverndar leiða rök LT ekki til þeirrar niðurstöðu að vinnsla upplýsinga um greiðsluhegðun einstaklinga, sem standa í skilum með greiðslur, teljist nauðsynleg til að Lánstraust hf. eða þriðji aðili, eða aðili sem upplýsingunum yrði miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna sinna. Hafa þá verið metin lögvarin grundvallarréttindi hins skráða. Í ljósi þeirra er bent á að unnt er að byggja vinnslu um einstaklinga sem standa í skilum, og vilja vera á skrám hjá Lánstrausti, á samþykki þeirra, sbr. 1. tölul. sömu málsgreinar.

Samkvæmt framangreindu eru ekki uppfyllt skilyrði 7. töluliðar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þar af leiðandi, og með vísun til þeirra skýringa sem fram koma í fyrri bréfum Persónuverndar að því er varðar vinnslu LT á upplýsingum um greiðsluhegðun einstaklinga, sem standa í skilum með greiðslur, er ekki unnt að fallast á ósk Lánstrausts hf. um leyfi til vinnslunnar á grundvelli 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.




Var efnið hjálplegt? Nei