Nýtt starfsleyfi Creditinfo til vinnslu upplýsinga um lögaðila

Efni: Starfsleyfi til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þarf leyfi Persónuverndar til söfnunar og skráningar upplýsinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja, svo og annarra lögaðila, í því skyni að miðla til annarra upplýsingum um það efni. Með stoð í ákvæðinu hefur verið sett reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust sem hefur að geyma nánari reglur um það hvernig slíkri upplýsingavinnslu skuli hagað.

Fyrir liggur beiðni Creditinfo Lánstrausts hf., dags. 15. júní 2012, um endurnýjun starfsleyfis samkvæmt framangreindum ákvæðum til vinnslu fjárhagsupplýsinga um lögaðila. Afgreiðsla þessarar beiðni hefur tafist og hefur gildistími eldra leyfis, dags. 22. júní 2011 (mál nr. 2011/641), af þeirri ástæðu verið framlengdur. Töfin skýrist m.a. af meðferð Persónuverndar á beiðni fyrirtækisins um endurnýjun starfsleyfis til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni einstaklinga (mál nr. 2012/266), en við meðferð á þeirri beiðni var ákveðið að gera talsverðar breytingar á leyfisuppbyggingu og skilmálum. Til athugunar hefur verið hvernig lögaðilaleyfi skuli breytt til samræmis. Niðurstaða þeirrar athugunar er sú að nægilegt sé að vísa til ákvæða framangreindrar reglugerðar.

Hér með tilkynnist sú ákvörðun Persónuverndar að veita Creditinfo-Lánstrausti hf. nýtt starfsleyfi til söfnunar og skráningar upplýsinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja, svo og annarra lögaðila, í því skyni að miðla til annarra upplýsingum um það efni. Leyfið, sem gildir til 19. desember 2014, er bundið því skilyrði að við meðferð upplýsinganna sé í einu og öllu farið að ákvæðum reglugerðar nr. 246/2001.

 



Var efnið hjálplegt? Nei