Ákvörðun um nýtt starfsleyfi vegna einstaklinga

1.

Gerðar breytingar

Frá eldra leyfi hafa verið gerðar nokkrar breytingar:

a.

Í ljósi þeirra röksemda, sem tilfærðar eru í bréfi fyrirtæksins til Persónuverndar, dags. 20. júlí 2010 (mál nr. 2010/519), var fallist á beiðni þess um viðbót við 7. tölul. 2. gr. Þar segir nú:

„Sé félag án stjórnar eða framkvæmdastjórnar við uppkvaðningu úrskurðar um töku bús til gjaldþrotaskipta er heimilt að safna upplýsingum um þá einstaklinga sem síðast voru skráðir í fyrirsvari fyrir félagið allt að sex mánuðum áður en úrskurður var kveðinn upp.“

b.

1. málsgrein 7.3 í leyfinu hefur verið skipt niður í undirmálsgreinar. Í undirmálsgrein 7.3.1.er nú til skýringarauka tekið fram að notkun til markhópagreiningar eða aðrar aðgerðir til að leita æskilegra viðskiptavina falli ekki undir orðin „í þeim tilgangi að kanna lánstraust tiltekins einstaklings vegna væntanlegra eða yfirstandandi viðskipta“

Í 2. málsgrein 7.3. í leyfinu er nú til skýringarauka tekið fram að starfsleyfishafi ber ábyrgð á því að tilgreind atriði komi fram í samningum við áskrifendur og að þótt þau komi þar fram haggi það ekki ábyrgð starfsleyfishafa samkvæmt lögum nr. 77/2000 á þeirri vinnslu sem hann sjálfur framkvæmir. Skuli hann ávallt tryggja með viðhlítandi ráðstöfunum að heimild standi til þeirrar vinnslu sem hann hefur með höndum.

Í 3. málsgrein 7.3. í leyfinu er nú í einu ákvæði fjallað um viðbrögð starfsleyfishafa við því ef í ljós kemur að áskrifandi hefur brotið gegn skilmálum í áskriftarsamningi. Ekki er um efnislega breytingu að ræða heldur er framsetningu breytt til skýringarauka.

 

2.

Synjað um breytingu

Creditinfo-Lánstraust hf. hefur með bréfi til Persónuverndar, dags. 20. maí 2010 (mál nr. 2010/248), farið fram á að í 2. mgr. 3. verði fært ákvæði þess efnis að afla megi samþykkis einstaklinga fyrir því að ekki þurfi undirritaða beiðni þeirra fyrir hverri fyrirspurn í það upplýsingakerfi um fjárhagsskuldbindingar sem fjallað er um í 3. gr.

Í tengslum við þessa beiðni telur Persónuvernd að líta verði til þess hvers vegna ákveðið hefur verið að vinnsla upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga skuli háð leyfi Persónuverndar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sbr. 45. gr. laga nr. 77/2000. Að baki býr sú hugsun að það sé bæði til þess fallið að tryggja hagsmuni viðskiptalífsins og til þess að gera slíka vinnslu sanngjarnari gagnvart hinum skráða. Því miðar kerfi laganna við að lögmæti slíkrar vinnslu - s.s. öflun og sölu á vanskilaupplýsingum - byggist á leyfi opinbers eftirlitsyfirvalds, sem bundið er tilteknum skilmálum, en ráðist ekki af afstöðu hinna skráðu. Bæði getur verið óvíst að hinn skráði samþykki slíka vinnslu um sig, þannig að leitt getur til ósanngjarnar niðurstöðu gagnvart viðskiptaaðilum, auk þess sem ekki er t.d. öruggt að slíkt samþykki sé veitt af fúsum og frjálsum vilja, enda kann samþykkið að vera forsenda þess að einstaklingur geti fengið tiltekna fyrirgreiðslu. Hér er þannig um aðskilin kerfi (vinnsla á grv. opinbers leyfis/ vinnsla á grv upplýsts samþykkis) að ræða og þykir ekki rétt að blanda þeim saman með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Með vísun til þessara röksemda hefur ekki verið fallist á beiðni LT dags. 20. maí 2010 (mál nr. 2010/248).




Var efnið hjálplegt? Nei