Úrlausnir

Stuðningsyfirlýsingar með framboðslistum til sveitarstjórnarkosninga - mál nr. 2014/898

6.1.2015

Álit

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 17. desember 2014 var samþykkt svohljóðandi álit í máli nr. 2014/898:

 

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

 

1.

Tildrög máls

 

Í júní 2014 voru fluttar fréttir af því í fjölmiðlum að yfirkjörstjórn Kópavogs hefði afhent [B] lista yfir meðmælendur fyrir þau framboð sem buðu fram til sveitarstjórnarkosninga í Kópavogi, sem fram fóru í maí 2014, sbr. frétt af www.mbl.is sem birtist þann 6. maí 2014. Í kjölfarið voru fyrrnefndir meðmælendalistar birtar á fésbókarsíðu [B].

Af þessu tilefni ákvað stofnunin að hefja frumkvæðisathugun á lögmæti umræddrar miðlunar yfirkjörstjórnar Kópavogs á persónuupplýsingum um meðmælendur einstakra framboða.

 

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 10. júní 2014, var yfirkjörstjórn Kópavogs tilkynnt um málið til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óskaði stofnunin eftir upplýsingum um það, á grundvelli hvaða heimildar í 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eða eftir atvikum öðrum lögum, yfirkjörstjórn hefði talið sér heimilt að miðla listum yfir nöfn og kennitölur einstaklinga, sem styðja tiltekið framboð í sveitarfélaginu, til þriðja aðila sem og hvernig hún teldi miðlun kennitalna hafa samrýmst 10. gr. sömu laga.

Svarbréf yfirkjörstjórnar Kópavogs, dags. 27. júní 2014, barst Persónuvernd þann 4. júlí s.á. Í bréfinu segir að við afgreiðslu á beiðni [B] um afhendingu á umræddum meðmælendalistum hafi verið litið til leiðbeininga innanríkisráðuneytisins á vefsíðunni kosning.is, en þar segir: „Ekki verður talið að meðmælendur eigi rétt á nafnleynd. Kjörstjórn er því skylt samkvæmt upplýsingalögum að afhenda listana, verði farið fram á það.“ Þá bendir yfirkjörstjórn á að rétt sé að túlka undantekningar frá rétti almennings til aðgangs að gögnum þröngt. Þá telur yfirkjörstjórn að með lögum nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, sé tekin afstaða til þess hvaða athafnir skulu vera bundnar trúnaði og í hvaða tilvikum einstaklingar eru að lýsa yfir stjórnmálaskoðunum sínum, sbr. 19. gr. laganna, en þar segir að kosning til sveitarstjórnar skuli vera leynileg. Skráningu á meðmælendalista við framboð telur yfirkjörstjórn hins vegar ekki fela í sér yfirlýsingu um stjórnmálaskoðun.

Þá er vísað til áskilnaðar 22. gr. laga nr. 5/1998 um að yfirlýsing um stuðning kjósenda sveitarfélags skuli fylgja framboðslista og bent á að tilgangur skráningar á meðmælendalista sé að veita framboðum brautargengi, sem einnig feli í sér þátttöku í lýðræðissamfélagi. Meðmælendalistar hafi því ekki að geyma stjórnmálaskoðanir einstaklinga. Þannig hafi ekki verið um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar og því hafi verið litið svo á að 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ætti ekki við. Enn fremur segir í bréfi yfirkjörstjórnar að í lögum nr. 5/1998 komi ekki fram að meðmælendalisti sé trúnaðargagn. Þar sé hins vegar kveðið á um að meðmælendur skuli tilgreina nafn, kennitölu og heimili. Tilgreining kennitölu sé nauðsynleg til þess að tryggja örugga persónugreiningu. Þá segir að meðmælendum sé ekki heitið trúnaði og að með undirritun sinni veiti þeir samþykki fyrir því að yfirkjörstjórn verði afhentur listinn. Yfirkjörstjórn sé enn fremur skylt að halda gerðabók sem sé opinbert gagn.

Í niðurlagi bréfs yfirkjörstjórnarinnar segir að afhending listanna samrýmist markmiðum upplýsingalaga samkvæmt 1. gr. þeirra þar sem fram kemur að lögin eigi að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, m.a. til að styrkja möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, og aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum, sbr. 3. tölul. Að lokum segir í bréfi yfirkjörstjórnar að hún telji sér hafa verið skylt að afhenda [B] umræddar upplýsingar á grundvelli ákvæða upplýsingalaga.

Með bréfi, dags. 1. október 2014, var yfirkjörstjórn Kópavogs tjáð að Persónuvernd liti svo á að í svarbréfi yfirkjörstjórnarinnar, dags. 27. júní s.á., hefði ekki komið fram hvernig sú miðlun persónuupplýsinga, sem athugun stofnunarinnar beindist að, samrýmdist lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem stofnunin hefði eftirlit með. Óskaði Persónuvernd því á ný eftir því að yfirkjörstjórnin tilgreindi á grundvelli hvaða töluliðar 1. mgr. 8. gr., og eftir atvikum, 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, umrædd miðlun hefði byggst.

Svarbréf bæjarlögmanns Kópavogs, f.h. yfirkjörstjórnar Kópavogs, dags. 9. október 2014, barst þann 14. s.m. Þar segir að í upphaflegu erindi Persónuverndar hafi stofnunin óskað eftir því að upplýst yrði um á grundvelli hvaða heimildar í 1. mgr. 8.  og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, eða eftir atvikum öðrum lögum, umrædd miðlun hefði verið heimil. Af þeim sökum ítrekaði yfirkjörstjórn fyrri svör sín með vísan til upplýsingalaga nr. 140/2012. Loks ítrekaði bæjarlögmaður það álit yfirkjörstjórnar að með undirritun á meðmælendalista við framboð væru einstaklingar ekki að lýsa yfir stjórnmálaskoðun og því hefðu meðmælendalistarnir ekki að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar.

Með bréfi, dags. 28. október 2014, óskaði Persónuvernd skýringa frá innanríkisráðuneytinu vegna upplýsinga á kosningavef innanríkisráðuneytisins, www.kosning.is. Þar eru settar fram algengar spurningar og svör sem finna má undir flipunum „leiðbeiningar“ og „framboð“. Ein spurninganna snýr að því hvort umboðsmenn framboðslista eigi rétt á að fá ljósrit af meðmælendalistum annarra framboðslista. Á heimasíðu ráðuneytisins er eftirfarandi svar við fyrrnefndri spurningu:

„Ekki verður talið að meðmælendur eigi rétt á nafnleynd. Kjörstjórn er því skylt samkvæmt upplýsingalögum að afhenda listana, verði farið fram á það.“

Óskaði stofnunin eftir því að ráðuneytið upplýsti um hvort það túlkaði ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 á þann hátt að heimilt væri að afhenda öðrum en umboðsmönnum framboðslista meðmælendalista og ef svo væri, á grundvelli hvaða lagaheimildar slík túlkun byggðist. Þá óskaði stofnunin eftir upplýsingum um það hvort ráðuneytið teldi að upplýsingar sem fram koma á meðmælendalistum fælu í sér upplýsingar um stjórnmálaskoðanir viðkomandi einstaklinga eða ekki.

Í svarbréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 7. nóvember 2014, segir að ráðuneytið hafi svarað fyrirspurn umboðsmanns tiltekins framboðs í Kópavogi, í aðdraganda kosninganna, á þá leið að því efni sem finna má á vefnum kosning.is sé einungis ætlað að vera til almennrar leiðbeiningar um framkvæmd kosninga. Það eigi meðal annars við um efni varðandi framlagningu framboðslista og lista yfir meðmælendur skv. 6. kafla laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Í birtingu þessa efnis felist því á engan hátt afstaða ráðuneytisins til einstakra álitamála sem upp kynnu að koma við framkvæmd kosninganna, enda væri það hlutverk yfirkjörstjórna að skera þar úr. Slíkar úrlausnir yfirkjörstjórna kynnu síðan eftir atvikum að koma til endurskoðunar hjá þar til bærum stjórnvöldum. Þá segir jafnframt í bréfi ráðuneytisins að ekki liggi fyrir formleg túlkun ráðuneytisins á því hvort ákvæði upplýsingalaga heimili afhendingu meðmælendalista til annarra en umboðsmanna framboðslista né heldur hvort þær upplýsingar sem fram koma á meðmælendalistum, um stuðning við tiltekið framboð til kosninga, feli í sér upplýsingar um stjórnmálaskoðanir viðkomandi eða ekki. Loks kemur fram að ráðuneytið telji umrædda fullyrðingu, sem finna megi á vefsvæðinu kosning.is, óheppilega og hyggst ráðuneytið endurskoða efni vefsíðunnar að þessu leyti fyrir næstu kosningar með hliðsjón af niðurstöðu Persónuverndar í þessum málum.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

 

2.1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Þau lög, sem Persónuvernd framfylgir og starfar eftir, þ.e. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Með vísan til framangreinds er ljóst að miðlun persónuupplýsinga um meðmælendur sem styðja tiltekin framboð til kosninga til sveitarstjórnar fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

 

2.2.

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að eiga sér stoð í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar er greint á milli almennra persónuupplýsinga og viðkvæmra. Talsvert strangari kröfur eru gerðar til lögmætis vinnslu persónuupplýsinga sem teljast viðkvæmar í skilningi laga nr. 77/2000 en til vinnslu annarra persónuupplýsinga. Svo að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil þarf hún að uppfylla eitthvert skilyrða 1. mgr. 8. gr., sem og eitthvert skilyrða 1. mgr. 9. gr. laganna. Skilgreiningu á því hvaða persónuupplýsingar teljast viðkvæmar er að finna í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt a-lið 8. tölul. 2. gr. laganna teljast upplýsingar um stjórnmálaskoðanir einstaklinga viðkvæmar persónuupplýsingar.

Þá segir í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000 að oft geti aðrar upplýsingar en þær, sem taldar eru upp í ákvæðinu, talist viðkvæmar fyrir hlutaðeigandi. Í framkvæmd þurfi að taka tillit til slíks, jafnvel þótt ekki sé um að ræða upplýsingar sem teljast viðkvæmar samkvæmt upptalningu umrædds ákvæðis.

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingar, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta (4. tölul.); og að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á hina skráðu lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).

 

2.3.

Afmörkun úrlausnarefnis

Frumkvæðisathugun þessi lýtur að miðlun meðmælendalista frá yfirkjörstjórn Kópavogs til þriðja aðila, sem innihalda persónuupplýsingar um meðmælendur og skriflega yfirlýsingu þeirra um stuðning við tiltekinn framboðslista. Svo ekki valdi misskilningi um valdheimildir Persónuverndar er rétt að taka fram að valdsvið Persónuverndar tekur ekki til skyldu stjórnvalda til að afhenda almenningi gögn eða veita aðgang að upplýsingum á grundvelli ákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er á hinn bóginn bær úrskurðaraðili um ágreining um slíkan aðgang almennings að upplýsingum. Eftirfarandi ákvörðun fjallar um hvort miðlun yfirkjörstjórnar Kópavogs, á fyrrnefndum upplýsingum, hafi samrýmst ákvæðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

2.4.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla heimil byggist hún á samþykki hins skráða. Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga auk þess heimil taki hún einungis til upplýsinga sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar. Af orðalagi stuðningsyfirlýsinga kjósenda má ráða að undirritun þeirra felur aðeins í sér stuðning við tiltekinn framboðslista í sveitarfélagi og að einstaklingar hafi ekki mátt vænta opinberrar birtingar þeirra upplýsinga þótt þeim sé skilað til stjórnvalda. Því er það mat Persónuverndar að samþykki kvartanda nái einungis til stuðnings við tiltekinn framboðslista en ekki opinberrar birtingar. 

Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, segir að framboðslista skuli fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann. Framboðslista skuli einnig fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Þá segir að tilgreina skuli nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Loks segir að hver kjósandi megi einvörðungu mæla með einum lista við hverjar kosningar. Í 5. mgr. sömu greinar segir að kjósandi, sem hefur mælt með framboðslista, geti ekki afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína eftir að framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn.

Yfirkjörstjórn Kópavogs hefur bent á að hún telji sér hafa verið heimilt, og skylt, að afhenda þriðja aðila upplýsingar um stuðningsyfirlýsingar einstaklinga með tilteknum framboðslistum, á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Yfirkjörstjórn rökstuddi heimild sína ekki með vísan til tiltekins eða tiltekinna ákvæða laganna að öðru leyti en með vísan til almenns markmiðsákvæðis 1. gr. laganna auk þess sem 9. gr. laganna, um takmarkanir á rétti almennings til aðgangs að upplýsingum vegna einkahagsmuna, ætti ekki við. Af gögnum málsins, og með hliðsjón af gögnum í máli nr. 2014/911, sem varðar birtingu [B] á umræddum upplýsingum, má ráða að umrædd miðlun hafi grundvallast á ákvæði 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Miðast eftirfarandi úrlausn við það.

Í 1. gr. upplýsingalaga nr. 140/2014 segir að markmið laganna sé að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, m.a. í þeim tilgangi að styrkja:

   1. upplýsingarétt og tjáningarfrelsi,

   2. möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi,

   3. aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum,

   4. möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni,

   5. traust almennings á stjórnsýslunni.

Í 5. gr. upplýsingalaga segir að skylt sé að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, sé þess óskað, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í 9. gr. laganna er kveðið á um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 segir að ákvæðið feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekki erindi við allan þorra manna. Þá segir enn fremur í athugasemdum við ákvæðið að engum vafa sé undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt 9. gr.

Þá verður ekki annað ráðið af lögum nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna og lögskýringargögnum við þau, sem og eldri lögum um sama efni, en að markmið með stuðningsyfirlýsingum kjósenda við tiltekinn framboðslista sé einungis að veita honum lágmarksstuðning. Hafi vilji löggjafans staðið til þess að markmið fyrrnefndra stuðningsyfirlýsinga væri jafnframt að hafa almennt og opinbert eftirlit með kosningum hefðu lögin þurft að kveða skýrt á um slíkt. Þá ber að túlka allan vafa um skýringu settra laga borgurunum í hag á þann hátt að viðkvæmar persónuupplýsingar um þá verði ekki gerðar opinberar nema á grundvelli skýrrar heimildar.

Eins og hér háttar til telur stofnunin tilefni til að líta til sambærilegra ákvæða í rétti nágrannaríkja og hafa þau til hliðsjónar. Er þá m.a. litið til þess að um er að ræða lönd sem, rétt eins og Ísland, eru bundin af tilskipun 95/46/EB, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, en sú tilskipun hefur m.a. það að markmiði að samrýma persónuverndarlöggjöf Evrópuríkja.

Í norskri löggjöf segir í 2. mgr. 13. reglugerðar FOR-2003-01-02-5, um kosningar til Stórþingsins, fylkisþinga og sveitarstjórna, að þagnarskylda gildi um meðmælendur sem styðja einstök framboð til kosninga samkvæmt grein §6-3(2) í norskum kosningalögum. Slíkar upplýsingar skuli ekki afhenda öðrum, sbr. grein §15-4(1) sömu laga, sbr. einnig 1. tölul. §13. greinar norskra stjórnsýslulaga.  

Efnislega sambærilegt ákvæði er að finna í 30. gr. reglugerðar 2008-12-19-1480, um kosningar til Samaþingsins.

Í danskri löggjöf eru settar sérreglur um varðveislutíma upplýsinga um meðmæli kjósenda með tilteknum framboðum til kosninga til þjóðþingsins. Í 12. og 13. gr. danskra laga um kosningar til þjóðþingsins nr. 128 frá 26. júní 2013 er m.a. fjallað um yfirlýsingu tiltekins fjölda kjósenda sem nauðsynlegt er að fylgi nýjum framboðum til þjóðþingskosninga. Í 9. mgr. 12. gr. laganna  kemur fram að efnahags- og innanríkisráðuneytið skuli einungis varðveita meðmæli kjósenda í 18 mánuði en að þeim tíma loknum skuli þeim eytt, sbr. einnig ákvæði 6. mgr. 1. gr. breytingalaga nr. 312 frá 29. mars 2014, en breytingalögin færðu söfnun meðmæla kjósenda yfir í rafrænt form. Í umsögn danska upplýsingaöryggisráðsins um fyrrnefnd breytingalög, dags. 9. mars 2014, kemur fram að meðmæli einstaklinga með framboðum sem hyggjast bjóða fram til þingkosninga séu stjórnmálaskoðanir og að varhugavert sé að skrá þær þar sem slík skráning gæti haft áhrif á vilja kjósenda til þess að gefa meðmæli. Óskaði Persónuvernd staðfestingar á eðli þeirra upplýsinga sem hér um ræðir frá dönsku persónuverndarstofnuninni (d. Datatilsynet). Í tölvupósti frá 11. desember 2014 kemur fram að upplýsingar um stuðningsyfirlýsingar einstaklinga við framboð teljist stjórnmálaskoðanir.

Í ljósi framangreinds er það mat stjórnar Persónuverndar að yfirlýsing um stuðning við tiltekinn framboðslista til kosninga til sveitarstjórna feli í sér upplýsingar um stjórnmálaskoðanir og innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar. Í því sambandi hefur sérstaklega verið höfð hliðsjón af eðli þeirra upplýsinga sem hér um ræðir, því að eingöngu er heimilt að styðja einn, tiltekinn framboðslista og norrænni lagaframkvæmd.

Fyrir liggur að persónuupplýsingum um hundruð einstaklinga ásamt yfirlýsingum um stuðning þeirra við tiltekna framboðslista til kosninga til sveitarstjórnar í Kópavogi var miðlað frá yfirkjörstjórn Kópavogs til þriðja aðila. Svo að heimilt sé að vinna með, þ.m.t. miðla, viðkvæmum persónuupplýsingum er nauðsynlegt að einhverju skilyrða 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 sé fullnægt. Þar á meðal getur komið til skoðunar 3. tölul. 8. gr. og 2. og 6.tölul. 9. gr. laganna en þar segir að vinnsla sé heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, sérstök heimild standi til vinnslunnar samkvæmt öðrum lögum eða hinn skráði sjálfur hafi gert upplýsingarnar opinberar. Eins og hér háttar til reynir á hvort í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 felist lagaskylda og sérstök lagaheimild í skilningi fyrrgreindra ákvæða. Einnig ber hins vegar að líta til þess að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er stjórnvaldi óheimilt án samþykkis viðkomandi að miðla gögnum um viðkvæmar persónuupplýsingar einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt. Sem fyrr segir er hér um slíkar upplýsingar að ræða.

Með vísan til framangreinds er það mat Persónuverndar að ákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eigi við um upplýsingar um stuðning einstaklinga við tiltekinn framboðslista, til kosninga til sveitarstjórnar. Af þeim sökum telst 5. gr. upplýsingalaga ekki fela í sér heimild til miðlunar sbr. 3 tölul. 1. mgr. 8. og 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Þá eiga aðrar heimildir samkvæmt þeim ákvæðum ekki heldur við. Var umrædd miðlun þar af leiðandi óheimil.

 

 

Á l i t s o r ð:

Miðlun yfirkjörstjórnar Kópavogs á persónuupplýsingum um meðmælendur einstakra framboða til sveitarstjórnarkosninga í Kópavogi var ekki í samræmi við lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei